top of page

Silfurskottur

 

Silfurskottan telst til kögurskottanna (Thysanura) sem taldar eru einn af elstu og frumstæðustu ættbálkum skordýra. Silfurskottur eru stór skordýr á íslenskan mælikvarða því að fullorðin dýr geta orðið rúmur sentímetri á lengd. Þær eru vængjalausar og þaktar silfruðu hreistri. Silfurskottur eru óvenju langlífar af skordýrum að vera og geta orðið allt að fimm ára, en að sama skapi er frjósemin ekki mikil.

 

Ástæða þess að silfurskottur finnast í húsum hér á landi er einfaldlega sú að þær sækja í aðstæður þar sem þeim líður vel. Í baðherbergjum er oft hátt rakastig sem eru kjöraðstæður fyrir silfurskottur og sækja þær því gjarnan þangað, vaxa þar og tímgast. Hér má hafa í huga að rakastig í lofti í baðherbergjum tengist hitastiginu því að heitt loft getur tekið í sig meiri raka en kalt. Silfurskottur eiga mjög erfitt uppdráttar utanhúss hér á landi vegna óhagstæðs veðurfars, en sunnar í Evrópu lifa þær utanhúss.

 

 

Kvendýrið verpir eggjum víða í sprungur og smáglufur í baðherberginu þar sem þau loða vel við undirlagið. Verulegar líkur eru á að fólk beri þessi egg milli húsa án þess að vita af því, og þannig flytjast silfurskottur frá einum stað til annars. Þó að silfurskottur finnist er það engin staðfesting á því að rakaskemmdir séu í baðherbergi, heldur aðeins að þar sé þokkalega hátt rakastig eins og tíðkast í flestum baðherbergjum, ekki síst ef þar er heitt eins og áður sagði.

 

bottom of page